Blog

Gleðilegt nýtt garn

Er ekki alltí lagi að láta sig dreyma um vorið þó það sé bara janúar? Alger jarðtenging í gangi í þessum litum hér fyrir ofan. Brúnir mjúkir tónar og einn temmilega ferskur grænn til að poppa dæmið upp.

Árið 2017 var gott ár

Fyrsta árið sem þessi vefverslun er opin er þá liðið, eða ég opnaði ekki fyrr en 1.ágúst í fyrra en árið er liði samt sem áður. Móttökurnar alveg með eindæmum góðar. Bjóst alls ekki við þessu, kann bara innilega vel að meta kynnin. Greinilegt að handlitað garn er að ryðja sér til rúms hér á Íslandi.

Ég var með á einum markaði fyrir jól og stefni á að fara á fleiri í ár. Eitthvað er í pípunum með að koma Vatnsnes Yarn garninu í garnbúðir svo ég er bæði vongóð og spennt fyrir þessu nýbyrjaða ári.

Á prjónunum

Ég prjónaði bara eina jólagjöf í ár, en það var þetta sæta barnateppi. Systir mín eignaðist sitt fjórða barn í október svo skvísan fékk teppi.. líka þó svo að ég hafi vitað að hún var búin að fá teppi frá amk einni ömmu. Ég nefnilega tók að mér að prufuprjóna teppið og fannst tilvalið að nýjasti meðlimurinn í fjölskyldunni myndi fá að nota það, fyrst öll mín börn eru vaxin uppúr smábarnateppunum. Ef þú hefur áhuga þá er uppskriftin hér, þetta er auðvelt prjón og fljótprjónað. Lærði líka nýja uppfit, sem er vel.

Svosem búin að birta þessa mynd á samfélagsmiðlum en datt í hug að setja hana hér inn líka.

Ég prjónaði það úr litnum Let it Go, sem er ljósgrár litur með bleikum, sægrænum og dökkgráum litasprengjum í. Ekki mjög aggressívur litur, frekar neutral og róandi að mér finnst og hentar báðum kynjum. Garnið sem ég notaði var Superwash DK. Það er æðislega mjúkt og svo er hentugt að hafa superwash ull þar sem þú veist.. þetta er barnateppi, það eru allar líkur á að það sprautist mjólk á það, það er kannski oft legið á því á gólfinu og þannig.

Milli jóla og nýárs var hvorki meira né minna en -18 gráðu frost á norðurlandi vestra. Eflaust kalt allstaðar á landinu en ég er nýflutt hingað aftur eftir búsetu erlendis í blokk, svo mín viðbrögð við því að búa í húsi útí sveit í þessum kulda voru auðvitað að stinga mér í stassið og veiða þar uppúr íslensku ullina, að þessu sinni Einrum garnið, sem er íslensk ull spunnin saman við silkiþráð og byrja á risastórri gollu til að vefja mig inní. Hún er prjónuð frá  hálsmáli og niður og ég er komin að handvegi, næstum því. Smelli kannski myndum af því við tækifæri hér inn 🙂

#MeToo

Í október, þegar #metoo byltinginn lét á sér kræla ákvað ég að gefa hluta af sölunni fyrir afganginn af október, hér í gegnum vefinn. Í lok október sendi ég greiðsluna til Stígamóta. Ég kann þeim sem ákváðu að taka þátt í þessu með mér, bestu þakkir fyrir.

Talið frá vinstri eru litirnir  Skinny Love, Lady in Pink, Sætur, Koss og #MeToo en #MeToo liturinn er einmitt innblásinn af byltingunni.

Nýtt!

Annars eru þrír nýjir litir á leið í hillurnar.

Sá sem er lengst til vinstri hefur fengið nafnið Lady Mary, sá í miðjunni og þessi guli hafa ekki fengið nafn ennþá en allir þrír koma í sölu von bráðar.

Gaman að segja frá því að liturinn Lady Mary er nefndur eftir Marý sem hafði samband við mig og vantaði garn í Comfort Fade Cardi.

Hún hafði valið sér Fairy Tale, Stjörnuryk og Suðvestur en vantaði lit á milli Stjörnuryks (2. frá hægri) og Suðvesturs (1. frá vinstri). Til að tengja þessa tvo liti saman hannaði ég s.s Lady Mary.

Takk fyrir innlitið. Þar til næst ♥

2 thoughts on “Gleðilegt nýtt garn

  1. Inga says:

    Æðisleg garnið þitt

    1. Kristín says:

      Takk 🙂

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *